Fótbolti

Eggert Gunnþór í sigurliði - Jóhann Berg í tapliði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eggert Gunnþór var einn fárra Íslendinga í sigurliðum í dag.
Eggert Gunnþór var einn fárra Íslendinga í sigurliðum í dag. Nordic Photos/Getty
Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni með liðum sínum í Evrópuboltanum í dag. Eggert Gunnþór Jónsson var í sigurliði Hearts sem lagið Aberdeen. Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í AZ Alkmaar töpuðu fyrir Twente.

Það var Íslendingaslagur í Edinborg þar sem Eggert Gunnþór Jónsson og félagar í Hearts tóku á móti Kára Árnasyni og félögum í Aberdeen. Hearts hafði 3-0 sigur. Eggert Gunnþór og Kári voru báðir í byrjunarliðum liðanna og Kári fékk gult spjald.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar sem tapaði 2-0 á útivelli gegn FC Twente. Jóhanni var skipt af velli um miðjan síðari hálfleik fyrir bandaríska landsliðsmanninn Jozy Altidore.

Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth sem tapaði 0-1 gegn Brighton á Fratton Park í Championship-deildinni. Hermann var tekinn af velli seint í leiknum.

María Björg Ágústsdóttir, Edda Garðarsdóttir og Ólína G. Viðarsdóttir voru í liði Örebro sem gerði 1-1 jafntefli gegn botnliði Dalsjöfors GoIF. Mikilvæg stig í vaskinn hjá Örebro.

Enn syrtir í álinn hjá Jónasi Guðna Sævarssyni og félögum í Halmstad. Liðið beið lægri hlut 0-1 á heimavelli gegn BK Häcken. Halmstad er er einmana á botni sænsku deildarinnar. Jónas Guðni spilaði allan leikinn á miðjunni hjá Halmstad.

Þá var Grétar Rafn Steinsson í liði Bolton sem vann 4-0 sigur á QPR á Loftus Road í dag. Heiðar Helguson kom inná sem varamaður hjá Lundúnarliðinu í stöðunni 3-0 í síðari hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×