Fótbolti

Sýrlandi vísað úr undankeppni HM 2014

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr viðureign Sýrlendinga og Tadsjika í 2. umferð undankeppninnar. Sýrlendingar í rauðu.
Úr viðureign Sýrlendinga og Tadsjika í 2. umferð undankeppninnar. Sýrlendingar í rauðu.
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur vísað landsliði Sýrlands úr undankeppni HM 2014. Tadsjikistan tekur sæti Sýrlands í undankeppninni.

Að sögn FIFA notuðu Sýrlendingar ólöglegan leikmann í undankeppninni. Leikmaðurinn var meðal annars í liði Sýrlands sem lagði Tadsjikistan 6-1 samanlagt í umspili í 2. umferð undankeppninnar.

Í yfirlýsingu frá FIFA segir:

„Landsliði Sýrlands hefur verið vikið úr keppninni og tapar sjálfkrafa leik sínum í 2. umferð undankeppninnar. Ákvörðunin er endanleg og ekki er gefinn kostur á áfrýjun.“

Sýrland hefur aldrei komist í úrslitakeppni heimsmeistaramóts og þóttu ekki líklegir til afreka, frekar en landslið Tadsjikistan. Tadsjikar taka sæti Sýrlendinga í 3. umferð undankeppninnar þar sem liðið er í riðli með Japan, Úsbekistan og Norður-Kóreu.

Ólöglegi leikmaðurinn hefur ekki verið nafngreindur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×