Fótbolti

Bellamy vill ekki til Celtic

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Craig Bellamy framherji Manchester City hefur samkvæmt heimildum Sky Sports engan áhuga á að ganga til liðs við Celtic í sumar en hann var á láni hjá skoska stórliðinu frá Newcastle 2005.

Talið var að Celtic og Manchester City væru í viðræðum um kaupverð eða leigu á leikmanninum sem á ár eftir af samningu sínum við City en hann hefur gert mönnum ljóst að þangað vilji hann ekki fara.

Bellamy var á láni hjá Cardiff City á síðustu leiktíð en hann hefur ekki áhuga á að fara aftur að láni á komandi tímabili, hann vill klára samning sinn við City eða vera seldur frá félaginu.

Það eru ekki mörg félög sem geta boðið Bellamy viðlíka laun og hann er með hjá Manchester City og er spurning hvort hann vilji frekar safna peningum fyrir utan hópinn hjá City eða spila fótbolta fyrir lægri laun með öðru félagi en litlar líkur eru á að hann spili mikið fyrir City í vetur þar sem Sergio Aguero, Edin Dzeko, Mario Balotelli og Emmanuel Adebayor eru á undan honum í goggunarröðinni.

Bellamy ferðist ekki með City til Bandaríkjanna, Kanada og Írlands í sumar þar sem liðið æfði og lék sem gefur til kynna að hann sé ekki í framtíðarplönum Mancini stjóra City.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×