Enski boltinn

Ferguson útilokar ekki að Berbatov fari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov í leik með Manchester United.
Dimitar Berbatov í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Framtíð Dimitar Berbatov hjá Manchester United er enn í óvissu en stjóri liðsins, Alex Ferguson, segir það vel mögulegt að Berbatov muni spila með Paris St. Germain í framtíðinni.

PSG er sagt hafa áhuga á að fá Berbatov í sínar raðir og var Ferguson spurður af frönskum blaðamanni í gær hvort að Berbatov myndi mögulega spila með PSG í framtíðinni. „Að sjálfsögðu - ekkert mál,“ sagði Ferguson og brosti.

Berbatov var markahæsti leikmaður United í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og deildi gullskónum með Carlos Tevez, leikmanni Manchester City. Engu að síður virðist Ferguson ekki hafa mikla trú á Berbatov þegar kemur að mikilvægustu leikjunum en Berbatov var ekki í hópnum þegar að United tapaði fyrir Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor.

PSG er sagt reiðubúið að greiða 18-20 milljónir punda fyrir Berbatov og gæti United freistast til að taka tilboðinu. United hefur eytt um 50 milljónir punda í nýja leikmenn í sumar - þá Ashley Young, David de Gea og Phil Jones.

Forráðamenn United hafa þó áður sagt að Berbatov sé ekki til sölu og að hann muni mögulega hafa stóru hlutverki að gegna í liðinu á næstu leiktíð. Hann er dýrasti leikmaður United frá upphafi en félagið greiddi 30,75 milljónir punda fyrir hann á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×