Enski boltinn

Barton vitnar í Orwell og Washington á Twitter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barton í leik með Newcastle á síðustu leiktíð.
Barton í leik með Newcastle á síðustu leiktíð. Nordic Photos / Getty Images
Joey Barton er einn sá duglegasti á samskiptasíðunni Twitter og síðustu daga vitnað í merkismenn á borð við George Orwell og George Washington.

Barton á skrautlegan feril að baki. Hann hefur lúbarið liðsfélaga á æfingu og setið af sér fangelsisdóm fyrir ofbeldi á götum úti. Hann virtist hafa náð sér aftur á strik með Newcastle en eftir að hann neitaði að skrifa undir nýjan samning við félagið í vor hefur allt farið á versta veg.

Hann gagnrýndi forráðamenn Newcastle á Twitter-síðu sinni sem lagðist illa í yfirvaldið. Honum var gert að æfa einn síns liðs í gær auk þess sem að hann hefur verið sektaður um tveggja vikna laun.

Barton stendur þó fastur á sínu og sagði nýlega á Twitter að það sé ekkert því til fyrirstöðu að hann verði áfram hjá Newcastle enda á hann eitt ár eftir af samningi sínum. Hann hefur þó verið orðaður við önnur félög, til dæmis Tottenham og Arsenal.

Umrædd ummæli frá þeim Orwell og Washington fjalla um sannleikann og frelsi einstaklingsins og er augljóslega beint að forráðamönnum Newcastle. Þá vísar einnig í textabrot hljómsveitarinnar The Smiths sem segir að hann sé bara mannlegur og þurfi á ást annarra að halda - alveg eins og allir aðrir.

Twitter-síða Joey Barton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×