Enski boltinn

Hargreaves sýnir Leicester engan áhuga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Owen Hargreaves gengur meiddur af velli á Old Trafford.
Owen Hargreaves gengur meiddur af velli á Old Trafford. Nordic Photos/AFP
Sven-Göran Eriksson knattspyrnustjóri Leicester hefur útilokað að Owen Hargreaves gangi til liðs við félagið í Championship-deildinni. Að sögn Eriksson hefur Hargreaves ekki látið ná í sig sem Svíinn segir skrýtið.

Hargreaves, sem hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár, fékk ekki nýjan samning hjá Manchester United í vor. Talið var að hann myndi hugsanlega leggja skóna á hilluna en svo virðist ekki vera.

Leicester var eitt þeirra liða sem höfðu lýst yfir áhuga á að fá Hargreaves til liðs við sig. Eriksson hefur útilokað að enski landsliðsmaðurinn gangi til liðs við refina í Leicester.

„Það gerist ekki úr þessu. Hefði það átt að gerast væri búið að ganga frá því en nú er það um seinan," sagði Eriksson.

Hargreaves á 42 landsleiki að baki fyrir England en til samanburðar spilaði hann aðeins 39 leiki á fjórum árum hjá Manchester United. Óhætt að segja að meisðli hafi skemmt fyrir leikmannaferli kappans.

„Ég næ ekki í hann. Ég hef aðeins rætt við umboðsmanninn en hann (Hargreaves) hefur ekki haft samband aftur við mig sem er dálítið skrýtið," sagði Eriksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×