Enski boltinn

Óvitað hvenær Skrtel verður klár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Skrtel í leik með Liverpool.
Martin Skrtel í leik með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Varnarmaðurinn Martin Skrtel er enn að glíma við meiðsli í kálfa og veit ekki hvenær hann mun geta spilað með Liverpool á nýjan leik.

Skrtel spilaði reglulega með Liverpool á síðustu leiktíð en hefur ekkert spilað með liðinu í sumar. Liðinu hefur gengið skelfilega á undirbúningstímabilinu og vörn liðsins fengið á sig fimmtán mörk í fimm leikjum.

„Það kom bakslag á föstudaginn," skrifaði Skrtel á heimasíðu sína nýverið. „Ég fann fyrir miklum sársauka í fætinum og því er ég nú í meðhöndlun hjá læknum. Ég veit í raun ekki hversu langan tíma ég þarf til að jafna mig. Ég er að gera mitt besta til að geta komist aftur á völlinn eins fljótt og mögulegt er."

Liverpool mætir Sunderland í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar þarnæstu helgi en ólíklegt er að Skrtel nái leiknum.

Ekki er talið ólíklegt að Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, sé nú á höttunum eftir nýjum miðverði til að styrkja varnarlínu liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×