Enski boltinn

Pardew útilokar ekki Barton en segist þurfa að leysa Twitter-vandann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alan Pardew vill skiljanlega ekki missa einn sinn besta leikmann frá félaginu.
Alan Pardew vill skiljanlega ekki missa einn sinn besta leikmann frá félaginu. Nordic Photos/AFP
Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, sagði á blaðamannafundi í Newcastle í dag að dyrnar stæðu enn opnar fyrir Joey Barton miðjumann Newcastle. Barton var tjáð að hann mætti yfirgefa félagið á frjálsri sölu fyrr í vikunni. Barton hefur gagnrýnt stjórnarhætti hjá Newcastle reglulega á Twitter undanfarnar vikur.

„Ég hef aldrei lokað hurðinni á neinn og ég loka henni ekki á Joey. Hann æfði með varaliðinu í dag og hver veit, kannski æfir hann með aðalliðinu fljótlega,“ sagði Pardew við blaðamenn í dag.

Skömmu síðar tjáði Barton sig, á Twitter, og spurði hvort einhver væri með símanúmerið hjá verktökunum Isambard Kingdom Brunel. Fyrirtækið er framarlega í heiminum í brúarsmíði sem gæti bent til þess að Barton vilji leita sátta hjá vinnuveitendum sínum.

„Þetta er staða sem ég reiknaði ekki með að vera í. Joey er frábær leikmaður og þú vilt hafa frábæra leikmenn í liði þínu. Það er mjög mikilvægt hjá knattspyrnuliði að allir togi í sömu átt. Í augnablikinu gerir Joey það ekki,“ sagði Pardew.

Pardew hefur líkt og fleiri knattspyrnustjórar líst yfir áhyggjum sínum með Twitter-samskiptasíðuna. Hann telur að vandamálið hefði líklega mátt leysa ef ekki hefði verið fyrir tilvist samskiptasíðunnar. Hann segist hafa haft samband við Sir Alex Ferguson og óskað eftir ráðum.

„Við fylgjum núna stefnu sem Sir Alex segir sitt félag hafa fylgt. Ég hef ekkert á móti þessum síðum og ég held að stjórar í ensku úrvalsdeildinni séu það almennt ekki. En leikmenn verða að gæta sín að tjá sig ekki um félög sín,“ sagði Pardew.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×