Innlent

Blásandi borhola er Hveragerðingum hvimleið

Blásandi borhola heldur vöku fyrir íbúum í Hveragerði. Magnús Þór Sigmundsson, tónlistarmaður í bænum, segir ástandið óviðunandi. Hann þurfi að ímynda sér að hávaðinn sé sjávarniður til að festa nótur á blað.

Magnús býr ásamt eiginkonu sinni fyrir neðan aðra borholu, litlu neðar í bænum, sem veldur einnig íbúum ónæði. „Hún malar nú bara eins og kettlingur núna en þegar hún lætur sem verst er þetta nánast óþolandi sko.“

Hann segir fólk í næsta nágrenni ekki sofa fyrir hávaða þegar hæst lætur í borholunni. Þau hjónin leituðu til lögreglunnar en rákust á vegg.

„Þeir sögðu að lögfræðingar lögreglustöðvarinnar töldu þetta ekki vera mál til að kæra því þetta eru náttúruöfl, en ég benti á að þessu væri stjórnað af mannavöldum þar sem þessu væri stjórnað með krana en ég fékk ekki að kæra.“

Magnús, sem er landsþekktur tónlistarmaður, segir þetta ekki hafa áhrif á tónsköpunina.

„Ég er alinn upp í Njarðvíkum og Suðurnesjum og ég get sætt mig við þetta með að færa þetta yfir á brim í roki, svipað og þegar brim skellur á klettum með miklum látum, og hávaðinn er líka eins og í miklu roki.“

Við ræddum við annan nágranna sem var óhress með Orkuveitu Reykjavíkur en samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni er nú unnið að lausn málsins, bæði til skemmri og lengri tíma.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.