Enski boltinn

Sky Sports: Arsenal hafnaði tilboði Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cesc Fabregas er enn sem komið er leikmaður Arsenal.
Cesc Fabregas er enn sem komið er leikmaður Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Fréttastofa Sky Sports hefur það eftir heimildum sínum að Arsenal hafi hafnað síðasta boði Barcelona í Cesc Fabregas, fyrirliða enska liðsins. Fabregas mun hafa sjálfur lagt til þrjár milljónir evra í tilboð Börsunga.

Áður hafði Arsenal hafnað tveimur tilboðum Barcelona í kappann en samkvæmt fregnum síðastliðna daga mun þetta hafa verið lokatilboð Börsunga í bili.

Arsenal vill ekki láta Fabregas frá sér fyrir minna en 45 milljónir evra en talsvert vantaði upp á tilboð Börsunga. Samkvæmt sömu frétt bauð Barcelona 29 milljónir evra strax og sex milljónir til viðbótar sem kæmu til greiðslu síðar.

Þá mun Fabregas sjálfur lofað því að leggja þrjár milljónir til viðbótar. Heildarpakkinn var því 38 milljóna evra virði.

Fabregas hefur verið sterklega orðaður við Barcelona, uppeldisfélagið sitt, undanfarin tvö ár en enn hefur ekki orðið af félagaskiptum hans þangað. Fabregas hefur ekkert spilað með Arsenal á undirbúningstímabilinu en tók þó þátt í opinni æfingu félagsins í gær. Þar hitti hann stuðningsmenn Arsenal í fyrsta sinn síðan í vor.

Spænsk dagblöð fjölluðu mikið um Fabregas í morgun og segja mjög líklegt að Fabregas muni á endanum ganga til liðs við Barcelona áður en félagaskiptaglugginn lokar um mánaðamótin.

Arsenal mætir Benfica í æfingaleik um helgina og er talið líklegt að Fabregas komi við sögu í þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×