Enski boltinn

Mancini: Á von á glöðum Tevez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tevez fagnar marki í leik með City.
Tevez fagnar marki í leik með City. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, á ekki von á öðru en að Carlos Tevez verði hamingjusamur og glaður þegar hann mætir aftur á æfingar með liðinu eftir helgi.

Tevez hefur verið í fríi eftir Copa America lauk í heimalandinu en hann hefur opinberlega lýst því yfir að hann vilji fara frá City. Hann sé ekki ánægður með lífið í Manchester.

Tevez var nálægt því að ganga til liðs við Corinthians í Brasilíu í sumar en ekkert varð að því. Hann hefur einnig verið orðaður við félög á Ítalíu og Spáni.

„Ég er búinn að tala við hann. Síminn hans virkar á ný,“ sagði hann í gamansömum tón. „Hann var ánægður og sagði að hann myndi koma aftur á mánudaginn. Það var allt eins og það átti að vera.“

„Carlos mætir aftur á mánudaginn því þá er hann búinn að vera í 21 dag í fríi eftir Copa America.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×