Enski boltinn

Lukaku á leið til Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Romelu Lukaku mun líklega ganga til liðs við Chelsea í næstu viku.
Romelu Lukaku mun líklega ganga til liðs við Chelsea í næstu viku. Nordic Photos / AFP
Anderlecht hefur tilkynnt að félagið hefur komist að samkomulagi við Chelsea um söluverð á hinum átján ára Romelu Lukaku.

Lukaku er einn efnilegasti sóknarmaður Evrópu í dag en hann hefur verið orðaður við Chelsea í nokkurn tíma.

Lukaku á nú eftir að gangast undir læknisskoðun hjá Chelsea auk þess að komast að samkomulagi um kaup og kjör.

Lukaku hefur spilað vel með Anderlecht undanfarin tvö ár og sagði í viðtali við hollenska fjölmiðla í morgun, áður en þetta var tilkynnt, að hann óttist ekki samkeppnina hjá Chelsea.

„Ég er tilbúinn til að spila með jafn góðu liði og Chelsea. Ég get vel bætt minn leik og aðlagast nýjum aðstæðum,“ sagði hann.

„Sturridge, Kalou og Anelka spila allir á kantinum og Chelsea er í raun bara með tvo ekta framherja - þá Drogba og Torres. Þegar lið spilar 70 leikir á ári fá allir leikmenn að spila, þó það séu þrír til fyrir hverja stöðu.“

Kaupverðið hefur ekki fengist uppgefið en talið er að Anderlecht hafi áður hafnað átján milljóna punda tilboði í Lukaku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×