Enski boltinn

Capello: Barton of hættulegur fyrir landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joey Barton í leik með Newcastle.
Joey Barton í leik með Newcastle. Nordic Photos / Getty Images
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, mun ekki velja Joey Barton í landsliðið í sinni þjálfaratíð. Hann telur Barton vera of hættulegan fyrir landsliðið.

Mikið hefur verið fjallað um málefni Barton í gegnum tíðina. Nú síðast fyrir útistöður hans við forráðamenn Newcastle sem fór aðallega fram á Twitter-síðu Barton.

Hann hefur áður setið af sér fangelsisdóm fyrir ofbeldi og verið refsað fyrir að lemja liðsfélaga á æfingu þegar hann var á mála hjá Manchester City.

Barton á einn landsleik að baki en í honum kom hann inn á sem varamaður gegn Spáni árið 2007 og spilaði síðustu tólf mínútur leiksins.

„Hann er góður leikmaður en hættulegur. Hann gæti fengið rauða spjaldið og þá erum við tíu á móti ellefu,“ sagði Capello á blaðamannafundi í gær.

Capello sagði enn fremur að það væri ekki gott að velja leikmenn sem eiga í útistöðum við félögin sín. „Samskipti félags og leikmanna sinna eru mjög mikilvæg,“ sagði Capello.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×