Enski boltinn

Henry gerði Arsenal grikk - Red Bulls vann mótið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Thierry Henry lyftir verðlaunabikarnum í leikslok á Emirates í dag.
Thierry Henry lyftir verðlaunabikarnum í leikslok á Emirates í dag. Nordic Photos/AFP
Arsenal og New York Red Bulls skildu jöfn í Emirates-bikarnum í knattspyrnu í Lundúnum í dag. Lokatölurnar 1-1 en það var Thierry Henry sem var arkitektinn að jöfnunarmarki bandaríska liðsins skömmu fyrir leikslok.

Arsene Wenger stillti upp nokkuð sterku liði gegn Red Bulls á Emirates í dag. Hann varð þó fyrir áfalli strax á 6. mínútu þegar Jack Wilshere fór meiddur af velli. Enski landsliðsmaðurinn meiddist lítillega á ökkla og ætti þó að jafna sig fljótlega.

Eina mark fyrri hálfleiksins skoraði fyrirliðinn Robin Van Persie eftir aukaspyrnu frá Tomas Rosicky. Sanngjörn forysta og Arsenal með öll tök á leiknum. Hið sama var uppi á teningnum í síðari hálfleiknum en Lundúnarliðinu mistókst þó að bæta við marki.

Nokkrum mínútum fyrir leikslok gerði Thierry Henry fyrrum liðsfélögum sínum grikk. Hann átti þá frábæra sendingu í gegnum vörn Arsenal á Kostaríkamanninn Roy Miller. Sending hans fyrir markið hafði viðkomu í Kyle Bartley sem skoraði sjálfsmark.

Lokatölurnar 1-1 sem þýddu að New York Red Bulls stóðu uppi sem sigurvegarar í keppninni. Virkilega óvænt en Red Bulls liðið vann 1-0 sigur á Paris Saint Germain í gær.

Parísarliðið stóð sig þó öllu betur í dag þegar liðið lagði Boca Juniors með þremur mörkum gegn engu. Jean-Eudes Maurice, Guillaume Hoarau og Marcos Ceara skoruðu mörk PSG. Franska liðið hafnaði í öðru sæti mótsins með þrjú stig.

Lokaröð liðanna

1. New York Red Bulls 4 stig

2. Paris Saint Germain 3 stig

3. Arsenal 2 stig

4. Boca Juniors 1 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×