Erlent

Hugsanlegt að annar byssumaður hafi verið á eyjunni

Að minnsta kosti 91 eru látnir eftir sprenginguna í höfuðborginni og skotárásina á eyjunni Útey.
Að minnsta kosti 91 eru látnir eftir sprenginguna í höfuðborginni og skotárásina á eyjunni Útey. Mynd/AFP
Fjölmörg vitni á eyjunni Útey segjast handviss um að byssumaðurinn á eyjunni í gær hafi ekki verið einn að verki þegar hann varð að minnsta kosti áttatíum og fjórum að bana. Þau segja að skothljóð hafi heyrst á mismunandi stöðum á eyjunni.

Þetta kemur fram á fréttavef dagblaðsins Verdens Gang. Þar er haft eftir pilti, sem var á eyjunni þegar skothríðin hófst, að skothljóð hafi heyrt úr mörgum áttum. Þá segja sumir þeirra sem lifðu árásina af að þau hafi séð annan mann, sem var ekki klæddur í lögreglubúning líkt og sá sem er í haldi lögreglu, með skammbyssu og riffil á bakinu. Hann sé dökkhærður og um 1,80 sentimetrar á hæð. Lögreglan hefur ekki útilokað að hann hafi átt sér vitorðsmann.

Anders Behring Breivik er í haldi lögreglu en hann er sagður hafa skotið á gesti á eyjunni í gærdag.

Tuttugu og eins árs gamall piltur segir við fréttastofuna CNN að Anders hafi komið á eyjuna klæddur í lögreglubúning. Hann hafi beðið um að fá að ávarpa gesti vegna sprengingarinnar í höfuðborginni nokkrum klukkutímum áður. Þegar hann hafi fengið orðið hafi hann byrjað að skjóta fólk. Fólk hafi hlaupið um í allar áttir og sumir hafi reynt að synda af eyjunni. Pilturinn segir að hann hafi ásamt tveimur öðrum hafi legið í jörðinni og þóst vera dánir og hann hafi heyrt Anders öskra að hann ætlaði að drepa alla á eyjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×