Erlent

Leitar að líkum við Útey: Ég er með slæman hnút í maganum

Heimir Már Pétursson skrifar
Enn er ekki vitað hversu margra er saknað eftir sprengju- og skotárásirnar í Noregi á föstudag. Fólks er enn leitað í og við Útey sem og í húsarústum í miðborg Oslóar.

Níutíu og sex manns eru særðir, þar af margir alvarlega eftir árásirnar á föstudag. Enn einn hefur bæst í hóp fallinna því norska ríkissjónvarpið greindi frá því í morgun að ungur maður sem særðist í skotárásinni í Útey hefði dáið á sjúkrahúsi í morgun. Heildarmynd hryllingsins er ekki enn að fullu komin í ljós. Fyrir utan þá níutíu og þrjá sem nú er staðfest að hafi fallið, eru níutíu og sex særðir þar af margir mjög alvarlega.

Sextíu og sex eru sárir eftir skotárásina í Útey og þrjátíu eftir sprengjutilræðið í stjórnarráðshverfinu í Osló.

Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofan fékk frá lögreglunni í Osló er enn verið að reyna að koma upp endanlegum lista yfir þá sem voru í Útey, en þar dvöldu um 500 ungmenni og starfsfólk. Lögreglan vill ekkert segja um fjölda þeirra sem saknað er. Enn sé mögulegt að lík eigi eftir að finnast í og við eyna sem og í húsarústum í miðborg Oslóar. En leit er haldið áfram við Útey, þar sem margir særðir og ósærðir lögðust til sunds á flótta sínum undan ódæðismanninum.

„Ég er með slæman hnút í maganum. Það er ekki spennandi að taka þátt í þessari leit. Maður hugsar til þeirra sem spyrja: „Hvar er dóttir mín, hvar er sonur minn?" Því munum við gera það sem í okkar valdi stendur til að finna þetta fólk," segir Norðmaður sem leitaði að ungmennum við Útey í dag.

Óstaðfestar fréttir herma að um 25 manns sé leitað við Útey og að fimm manneskjur hafi enn ekki komið í leitirnar í miðborg Oslóar. Það er þó rétt að ítreka að lögreglan vill ekki staðfesta þessar tölur, en opinberlega er enn verið að leita að fimm nafngreindum einstaklingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×