Fótbolti

Batista segir af sér sem þjálfari Argentínu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Batista var upphaflega tímabundin lausn eftir að Diego Maradona hafnaði samningsboði Argentínumanna.
Batista var upphaflega tímabundin lausn eftir að Diego Maradona hafnaði samningsboði Argentínumanna. Nordic Photos/AFP
Sergio Batista hefur sagt af sér sem þjálfari argentínska landsliðsins í knattspyrnu í kjölfar dapurs árangurs á heimavelli í Suður-Ameríkukeppninni. Batista hafði áður líst því yfir að hann ætlaði að halda áfram með liðið.

Talið var að argentínska knattspyrnusambandið myndi þurfa að reka Batista sem var með samning við landsliðið fram yfir undankeppni HM 2014 í Brasilíu.

„Batista var ekki rekinn. Batista gaf framkvæmdanefnd landsliðsins leyfi á að meta stöðu sína með landsliðið. Hún komst að þeirri niðurstöðu að rifta samningum við Batista,“ sagði Ernesto Bialo talsmaður argentínska knattspyrnusambandsins.

Batista hafði lýst opinberlega yfir áformum sínum um að byggja upp argentínskt landslið í kringum Lionel Messi. Liðinu gekk ágætlega í vináttuleikjum undir hans stjórn þar sem liðið vann meðal annars Spánverja og Brasilíu. Í Suður-Ameríkukeppninni létu úrslitin á sér standa og minnstu munaði að liðið tapaði gegn Bólivíu í fyrsta leik landsliðsins í keppni undir stjórn Batista.

Batista var djúpur miðjumaður í heimsmeistaraliði Argentínu í Mexíkó árið 1986. Hann var þjálfari Ólympíuliðs Argentínu sem fékk gullverðlaun í Peking árið 2008.

Argentínska knattspyrnusambandið segist ætla að gefa sér nægan tíma í leitina að eftirmanni Batista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×