Erlent

Lögmaður Breivik segir hann geðveikan

Anders Behring Breivik er ánægður með afleiðingar hermdarverkanna sem hann framdi á föstudag, þó hann hafi ekki búist við að geta gengið jafnlangt og raun bar vitni. Lögfræðingur hans veitti hrollvekjandi innsýn í hugarheim hans í dag.

Geir Lippestadt, lögfræðingur Anders Behring Breivik, hélt fyrsta blaðamannafund sinn í dag, og svaraði spurningum fjölmiðla um hugarástand og ódæðisverk skjólstæðings síns. Hann segir að maðurinn hafi gert ráð fyrir að valda miklum skaða, og hafi verið ánægður með afleiðingar árásanna.

„Já, hann var ánægður"

Lögfræðingurinn segir að Breivik hafi verið undir áhrifum örvandi efna þegar hann framdi árásina, en hann lýsti einnig hrollvekjandi sjálfsmynd Breiviks. Hann liti á sjálfan sig sem bjargvætt, en að mati lögfæðingsins bendir allt málið til þess að hann sé geðveikur.

Þá segir hann að það hafi komið Breivik á óvart að hann skyldi hafa komist alla leið í Útey eftir að hann bílasprengja hans sprakk í Osló, en lögregla hefur verið gagnrýnd fyrir hæg viðbrögð við skotárás mannsins.

„Hann taldi að lögreglan myndi koma þangað fyrr eða að lögreglan yrði komin þangað á undan honum. Þetta kom honum á óvart."

Lippestadt segir að skjólstæðingur hans sé afar rólegur og yfirvegaður, en hann gangist nú undir læknisrannsókn. Enn sem komið er sýnir hann engin merki eftirsjár.

„Hann sagði að það væri nauðsynlegt að hefja stríð hérna í Evrópu og um allan hinn vestræna heim. Honum þykir leitt að það skyldi vera nauðsynlegt en hann segir að það hafi verið nauðsynlegt."

Breivik er nú í einangrunarvist í haldi lögreglu, en enginn fjölskyldumeðlima hans hefur reynt að hitta hann. Norska lögreglan greindi frá því á blaðamannafundi í dag að því verði haldið leyndu hvar maðurinn er í haldi, en hann verður áfram yfirheyrður vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×