Enski boltinn

Darren Bent tryggði Villa sigur á Blackburn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David Dunn fær væna flugferð frá Stephen Warnock í leiknum í morgun.
David Dunn fær væna flugferð frá Stephen Warnock í leiknum í morgun. Nordic Photos/AFP
Aston Villa vann 1-0 sigur á Blackburn í Asíu-bikarnum í knattspyrnu sem fram fer í Hong Kong. Darren Bent skoraði eina mark leiksins snemma í síðari hálfleik en sigur Villa var sanngjarn.

Bæði lið stilltu upp sínum sterkustu liðum en gekk nokkuð illa að fóta sig í steikjandi hitanum í Hong Kong. Villa-menn voru sterkari aðilinn ef eitthvað var með miðverðina James Collins og Richard Dunne fremsta í flokki.

Shay Given stóð á milli stanganna í sínum fyrsta alvöru leik fyrir Aston Villa og stóð fyrir sínu. Hjá Blackburn var Argentínumaðurinn Mauro Formica í fremstu víglínu og greinilegt að hann gæti gert góða hluti fyrir Blackburn í ensku úrvalsdeildinni. Stutt er í að deildin hefjist en fyrsti leikdagur er 13. ágúst.

Leikurinn var fyrri undanúrslitaviðureignin á mótinu en nú stendur yfir viðureign Chelsea og heimamanna í Kitchee. Sigurliðið mætir Aston Villa í úrslitaleik mótsins á laugardag. Tapliðið mætir Blackburn í leik um 3. sætið.

Allir leikir mótsins eru í beinni útsendingu á Stöð2 Sport2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×