Fótbolti

Bandaríkin sló Brasilíu út í dramatískum leik eftir vítakeppni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hope Solo var hetja BNA.
Hope Solo var hetja BNA. nordic photos / AFP
Það verða Bandaríkin sem mæta Frökkum í undanúrslitum á HM kvenna á miðvikudag. Bandaríkin lagði Brasilíu í risaslag í 8-liða úrslitum í dag eftir vítaspyrnukeppni sem lauk 5-3.

Bandaríkin fengu óskabyrjun í leiknum þegar Brasilía skoraði sjálfsmark strax á annarri mínútu. Leikurinn var í járnum og Bandaríkin hélt forskotinu allt þar til á 68. mínútu.

Þá braut Rachel Buehler á Mörtu sem var í upplögðu marktækifæri. Vítaspyrna dæmd og Buehler rekin af velli.

Marta steig á punktinn og tók vítaspyrnuna, en Hope Solo, markvörður bandaríska liðsins, varði vítaspyrnuna. Mikil fögnuður braust út hjá þeim bandarísku en upp úr þurru flautaði dómari leiksins og vildi að vítaspyrnan yrði endurtekinn.

Dómari leiksins vildi meina að Hope Solo hefði farið af línunni þegar vítaspyrnan var tekin og lét endurtaka spyrnuna, glórulaus dómur. Marta steig aftur á vítapunktinn og skoraði örugglega.

Bandaríkin var því einum færri út leiktímann og staðan jöfn 1-1. Leikurinn hélst óbreyttur út venjulegan leiktíma og því þurfti að framlengja.

Strax á upphafsmínútu framlengingarinnar náðu þær brasilísku að komast yfir með öðru marki frá Mörtu. Það leit allt út fyrir að Brasilía væri að innbyrða sigur en Bandaríkin neituðu að gefast upp.

Þegar komið var fram á 122. mínútu leiksins náðu þær að jafna metin á dramatískan hátt þegar Abby Wambach skallaði knöttinn í netið og allt ætlaði um koll að keyra.

Staðan því 2-2 eftir framlenginguna og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. Bandaríkin skoruðu úr öllum sínum vítaspyrnum, en það var Hope Solo, markvörður liðsins, sem var hetjan en hún varði þriðju spyrnu Brasilíu frá Daiane.

Bandaríkin því komið í undanúrslitin og mæta Frökkum. Svíþjóð mætir Japan í hinum undanúrslitaleiknum á miðvikudaginn en úrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 17. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×