Fótbolti

Hearts snýr baki við dæmdum kynferðisbrotamanni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vladimir Romanov, eigandi skoska knattspyrnuliðsins Hearts, hefur sagt Craig Thomson að hann muni ekki spila framar fyrir félagið. Thomson var dæmdur fyrir ósæmilega hegðun gagnvart táningsstúlkum í júní síðastliðnum.

Hearts hafði fram til þessa staðið við bakið á hinum tvítuga Thomson en nú er komið annað hljóð í strokkinn. Í yfirlýsingu frá félaginu segir:

Félagið hefur velt öllum ásökunum fyrir sér og hefur ákveðið að leita leiða svo leikmaðurinn geti yfirgefið félagið á næstu dögum.

Thomson var dæmdur í rétti í Edinborg þann 17. júní fyrir ósæmilega hegðun gagnvart tveimur stelpum, 12 ára og 14 ára. Thomson sendi stúlkunum kynferðisleg skilaboð á Fésbókinni.

Aðspurður hvers vegna það tók Romanov og Hearts svona langan tíma að komast að niðurstöðu í málinu sagði Romanov:

„Við gátum ekki komist að niðurstöðu fyrr en eftir að hafa rætt við Thomson og fjölskyldu hans. Ég hef skoðað staðreyndir málsins og komist að þeirri niðurstöðu að hann hafði rangt við," sagði Romanov.

„Þetta er mjög slæmt fordæmi og hann mun ekki spila fyrir félagið aftur," bætti Romanov við.

Thomson var fastamaður í liði Hearts á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×