Fótbolti

Skrýtin ákvörðun dómara á HM í Þýskalandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bandaríkin slógu út Brasilíu á HM kvenna í knattspyrnu í gærkvöld eftir vítaspyrnukeppni. Markvörðurinn Hope Solo var hetja Bandaríkjanna en hún varði vítaspyrnuna sem gerði gæfumuninn. Hún varði einnig víti í venjulegum leiktíma sem dómari leiksins lét af einhverjum ástæðum endurtaka.

Marki undir var dæmd vítaspyrna og Rachel Buehler, varnarmanni Bandaríkjanna, vikið af velli. Solo gerði sér hins vegar lítið fyrir og varð vítaspyrnu Christiane við mikinn fögnuð samherja sinna.

Dómari leiksins, hin ástralska Jacqui Melksham, tók þá skrýtna ákvörðun. Eftir að leikurinn hafði haldið áfram í nokkrar sekúndur flautaði hún og fyrirskipaði að vítaspyrnan yrði tekin aftur. Aðstoðardómarinn hafði ekki lyft flaggi sínu og var kominn út að hornfána líkt og leikurinn ætti að halda áfram.

Vísir hafði samband við dómara í Pepsi-deild karla sem segir aðeins tvennt koma til greina. Annnaðhvort hafi markvörður farið áberandi af línu sinni eða leikmaður varnarliðsins verið kominn inn í teig. Enn er óljóst á hvort leikbrotið Melksham dæmdi.

Hope Solo fór vissulega af línu sinni en ekki meir en gengur og gerist í vítaspyrnum. Þá var varnarmaður Bandaríkjanna rétt kominn inn í teiginn þegar spyrnan reið af. Dómarar láta slíkt yfirleitt afskiptalaust nema leikmaður sé kominn þeim mun lengra inn í vítateiginn.

Hugsanlegt er að fjórði dómarinn hafi gripið inn í og notað samskiptabúnað til þess að reyna að aðstoða dómara leiksins. Það gæti skýrt hvers vegna það tók Helksham svo langan tíma að taka ákvörðunina.

Strangur dómur og Brasilía fékk annað tækifæri. Marta fékk það hlutverk að taka síðari spyrnuna og brást ekki bogalistin. Sendi knöttinn í sama horn.

Brasilía komst yfir í framlengingu og leit allt út fyrir brasilískan sigur en manni færri jöfnuðu Bandaríkin í viðbótartíma framlengingar. Í vítakeppninni skoruðu þær bandarísku úr öllum spyrnum sínu, eina þurfti að endurtaka þar sem markvörður Brasilíu var komin langt af línunni, og sæti í undanúrslitum tryggt.

Bandaríkin hefndu um leið fyrir tapið gegn Brasilíu á HM 2007. Þá vann Brasilía 4-0 sigur en Solo var sett á bekkinn fyrir leikinn. Síðan þá hafði Solo í fjórgang varið mark Bandaríkjanna gegn brasilíska liðinu og ekki fengið á sig mark, þar til í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×