Fótbolti

Þjálfari Perú hundfúll út í blaðamenn, þjálfara og dómara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úrúgvæinn Sergio Markarian hefur einnig þjálfað landslið Paragvæ.
Úrúgvæinn Sergio Markarian hefur einnig þjálfað landslið Paragvæ. Nordic Photos/AFP
Sergio Markarian, þjálfari landsliðs Perú í knattspyrnu, var myrkur í máli gagnvart fjölmiðlum, þjálfurum og dómurum að loknu 1-0 tapi Perú gegn Chile í Suður-Ameríkukeppninni í gærkvöld.

Hann gagnrýndi fjölmiðla fyrir að stimpla lið sem annaðhvort sóknarsinnuð eða varnarsinnuð. Þá skaut hann föstum skotum að þjálfurum stóru liðanna í keppninni án þess að nafngreina þá.

„Ég er þreyttur á því að lið séu stimpluð, það er óþolandi,“ sagði Markarian á fréttamannafundi eftir leikinn. „Fjölmiðlarnir, blaðamenn og þjálfararnir sem stimpla allt, ég er þreyttur á því.“

„Sumir þjálfarar eru stimplaðir sem sóknarþenkjandi, aðrir ekki. Það er alls staðar, í öllum löndum,“ bætti Markarian við.

„Það er mjög auðvelt þegar maður hefur leikmenn og hæfileikana sem þeir hafa að segja: „Ég er sóknarþenkjandi þjálfari.“ Ég er þreyttur á því. Það er komið nóg!“ sagði þjálfarinn í reiðistón.

Þá var Markarian afar ósáttur við dómarann í leiknum í gærkvöld fyrir að vísa Giancarlo Carmona af velli í síðari hálfleik.

Markarian neitaði að greina frá því um hvaða þjálfara hann væri að tala. Perú hafa legið undir gagnrýni fyrir að spila of varfærnislega í leikjum sínum í Argentínu. Þeir skoruðu aðeins tvö mörk í þremur leikjum sínum í riðlakeppninni en komust engu að síður áfram í átta liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×