Fótbolti

Pato og Neymar tryggðu Brasilíu efsta sætið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Robinho, Neymar og Maicon fagna marki í gærkvöld.
Robinho, Neymar og Maicon fagna marki í gærkvöld. Nordic Photos/AFP
Brasilía sýndi loks sitt rétta andlit þegar liðið vann 4-2 sigur á Ekvador í lokaumferð B-riðils Suður-Ameríkukeppninnar í knattspyrnu. Alexandre Pato og Neymar skoruðu tvö mörk hvor en Felipe Caicedo jafnaði í tvígang fyrir Ekvador. Venesúela og Paragvæ fóru bæði áfram þrátt fyrir 3-3 jafntefli.

Brasilía, sem hefur unnið keppnina í fjögur af síðustu fimm skiptum, sýndi loks klærnar gegn Ekvador. Með Maicon í hægri bakverðinum og Robinho í framlínunni litu þeir mun betur út en í fyrstu tveimur leikjunum.

„Þetta var besti leikur Brasilíu í keppninni hingað til,“ sagði Mano Menezes þjálfari Brasilíu.

Áhorfendur fengu einnig sex marka veislu í viðureign Paragvæ og Venesúela. Paragvæar voru með pálmann í höndunum skömmu fyrir leikslok tveimur mörkum yfir en Venesúela skoraði tvö í viðbótartíma og jafnaði metin.

Framganga Venesúela á mótinu hefur þótt athyglisverð. Þjóðin sem hingað til hefur verið aðhlátursefni í suður-amerískri knattspyrnu er ósigruð.

Brasilía, Paragvæ og Venesúela enduðu jöfn með fimm stig en Brasilía endaði efst á markatölu.

Viðureignirnar í 8-liða úrslitum

Laugardaginn 16. júlí

Argentína - Úrúgvæ

Kólumbía - Perú

Sunnudaginn 17. júlí

Brasilía - Paragvæ

Chile - Venesúela

Allir leikirnir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×