Fótbolti

Eiður Smári: Ný og skemmtileg áskorun

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eiður Smári er kominn til Grikklands.
Eiður Smári er kominn til Grikklands. mynd/aek365.gr
Eiður Smári Guðjohnsen er formlega orðinn leikmaður gríska liðsins AEK Aþenu. Eiður fór í læknisskoðun í morgun og skrifaði síðan undir samning. Í kjölfarið var hann kynntur fyrir fjölmiðlum. Eiður skrifaði undir tveggja ára samning við félagið og mun leika í treyju númer 22.

Forseti félagsins, Stvaros Adamidis, sagði á blaðamannafundinum í dag að kaupin á Eiði væru ein stærstu kaup í sögu félagsins.

Eiður sjálfur byrjaði á því að biðjast afsökunar á því hversu seint hann mætti á fundinn en blaðamenn máttu bíða í rúmar 50 mínútur eftir að fundurinn hæfist.

"Ég er mjög spenntur fyrir því spila fyrir AEK. Þetta er ný og skemmtileg áskorun. Ég hef hrifist mjög af því sem ég hef séð hérna og móttökurnar voru frábærar," sagði Eiður meðal annars á fundinum.

Arnar Grétarsson er maðurinn sem ber ábyrgð á komu Eiðs til félagsins.

"Eiður er frábær leikmaður sem hefur átt glæsilegan feril. Hann er sterkur karakter sem á eftir að færa mikið til félagsins," sagði Arnar.

Eiður fékk sannkallaðar stórstjörnumóttökur er hann lenti í Aþenu í gær. Um 2.000 stuðningsmenn félagsins tóku á móti honum og sungu nafn hans hástöfum.

Grísku fjölmiðlarnir fjalla allir sem einn mikið um komu Eiðs Smára sem eru stærstu tíðindin í gríska boltanum þetta sumarið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×