Fótbolti

HM kvenna: Þjóðverjar og Frakkar í 8-liða úrslit

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Annike Krahn varnarmaður þýska landsliðsins í baráttunni gegn Desire Oparanozie framherja Nígeríu.
Annike Krahn varnarmaður þýska landsliðsins í baráttunni gegn Desire Oparanozie framherja Nígeríu. AFP
Heimsmeistaralið Þjóðverja í kvennafótbolta tryggði sér í gær sæti í 8-liða úrslitum á HM sem fram fer í Þýskalandi með því að vinna Nígeríu 1-0. Frakkar unnu Kanada í sama riðli og eru Frakkar einnig búnir að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum en Nígería og Kanada sitja eftir í þessum riðli.

Yfirburðir Þjóðverja gegn Nígeríu voru miklir en heimaliðið náði ekki að brjóta varnarmúr Nígeríu fyrr en í síðari hálfleik. Leikmenn Nígeríu voru afar grófir og mörg ljót brot sáust.

Simone Laudehr skoraði eina mark leiksins með þrumuskoti.

Frakkar og Þjóðverjar mætast þann 5. júlí í úrslitaleik um efsta sætið í riðlinum. 

Mikil keppni er á milli bestu Evrópuliðana á HM að tryggja sér sæti á ÓL í London. Englendingar eru nú þegar búnir að tryggja sér þátttökurétt á ÓL sem gestgjafar en aðeins tvær bestu Evrópuþjóðirnar á HM komast einnig á ÓL.  Noregur og Svíþjóð ætla eflaust að blanda sér í þá baráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×