Fótbolti

Fjöldahandtökur í Tyrklandi vegna gruns um spillingu

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Sá þekktasti sem handtekinn var er forseti meistaraliðsins Fenerbahçe, Aziz Yıldırım.
Sá þekktasti sem handtekinn var er forseti meistaraliðsins Fenerbahçe, Aziz Yıldırım. AFP
Það logar allt stafna á milli í knattspyrnuveröldinni í Tyrklandi eftir að upp komst um risastórt svindlmál sem tengist m.a. meistaraliðinu Fenerbahçe. Tyrkneska lögreglan gerði húsleit á tólf mismunandi stöðum samtímis víðsvegar um landið á sunnudaginn.

Alls voru 50 manns handteknir, og þar á meðal forráðamenn liða og nokkrir leikmenn, en þeir eru grunaðir um að hafa hagrætt úrslitum gegn greiðslu og eru liðin sem liggja undir þessum grun úr efstu og næst efstu deild í Tyrklandi.

Sá þekktasti sem handtekinn var er forseti meistaraliðsins Fenerbahçe, Aziz Yıldırım. Varaforseti félagsins, Şekip Mosturoğlu, var einnig handtekinn ásamt nokkrum öðrum stjórnarmönnum.

Tyrkneska lögreglan hafði undirbúið þessar aðgerðir í margar vikur en símar voru m.a. hleraðir.

Svo gæti farið að Fenerbahçe yrði dæmt í keppnisbann og árangur liðsins á síðustu leiktíð þurrkaður út. Það myndi þýða að Trabzonspors yrði tyrkneskur meistari. Málið er gríðarlega flókið og umfangsmikið og mun það taka tíma að fá botn í allt það sem á undan er gengið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×