Fótbolti

Ástralar ósáttir við Harry Kewell

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Harry Kewell spilaði á sínum tíma með Leeds og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni
Harry Kewell spilaði á sínum tíma með Leeds og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni Nordic Photos/AFP
Harry Kewell einn besti og dáðasti knattspyrnumaður Ástralíu hefur skapað sér óvæntar óvinsældir í heimalandinu. Allt leit út fyrir að Kewell ætlaði að ljúka ferlinum í áströlsku A-deildinni en nú virðist vera komið babb í bátinn.

Ástralska deildarkeppnin hefur verið í mikilli lægð undanfarin ár og voru miklar vonir bundnar við komu Kewell. Fjölmörg lið í deildinni vildu semja við hann og greiða honum háar fjárhæðir með aðstoð knattspyrnusambands Ástralíu í þeim tilgangi að styrkja deildina.

Umboðsmaður Kewell Bernie Mandic sagði svo óvænt í útvarpsþætti á mánudaginn að Kewell hyggðist ræða við erlend félög eftir að samkomulag hefði ekki náðst í Ástralíu.

Ástralskir fjölmiðlar fara ófögrum orðum um Kewell og segja orðspor hans hafa beðið hnekki. Kröfur Kewell eru sagðar óraunhæfar og er þeim slegið upp í grín. Spurt er hvort Kewell vilji ekki breyta nafni deildarinnar í H-deildina. Einnig hvort hann krefðist ekki að það félag sem hann gengi til liðs við breytti nafni sínu í „Kewell + 10“.

Kewell, sem er 32 ára, hefur undanfarin ár spilað með Galatasaray í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×