Fótbolti

Svíar unnu Bandaríkin - Brasilía og Bandaríkin mætast

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sænsku stelpurnar fögnuðu sigrinum á Bandaríkjunum vel
Sænsku stelpurnar fögnuðu sigrinum á Bandaríkjunum vel Nordic Photos
Svíþjóð lagði Bandaríkin 2-1 í lokaumferð C-riðils á heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Úrslitin þýða að Svíar mæta Áströlum í átta liða úrslitum en Bandaríkin mæta Brasilíu.

Lisa Dahlkvist og Nilla Fischer komu sænsku stelpunum yfir í fyrri hálfleik í gærkvöldi. Bandaríkin reyndu hvað þau gátu að jafna metin í síðari hálfleik en tókst aðeins að minnka muninn með marki Abby Wambach. Svíar unnu alla leiki sína í riðlinum en leikurinn í gærkvöldi var úrslitaleikur um hvor þjóðin myndi sleppa við að mæta Brasilíu í átta liða úrslitum.

Bandaríkin og Brasilía mættust í undanúrslitum HM kvenna í Kína árið 2007. Brasilía tók Bandaríkin í kennslustund og sigraði í leiknum 4-0. Þær töpuðu svo gegn Þjóðverjum í úrslitaleik keppninnar. Bandaríkin eiga því harma að hefna. Leikurinn fer fram í Dresden á sunnudag.

8-liða úrslitinLaugardaginn 9. júlí

Þýskaland - Japan í Wolfsburg

England - Frakkland í Leverkusen

Sunnudaginn 10. júlí

Svíþjóð - Ástralía í Augsburg

Brasilía - Bandaríkin í Dresden




Fleiri fréttir

Sjá meira


×