Fótbolti

Torsten Frings til Toronto

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Koevermans og Frings með nýju treyjurnar sínar
Koevermans og Frings með nýju treyjurnar sínar Mynd/AP
Þýski landsliðsmaðurinn fyrrverandi Torsten Frings er genginn í raðir Toronto í MLS-deildinni vestanhafs. Auk þess hefur hollenski landsliðsmaðurinn fyrrverandi Danny Koevermans samið við félagið.

Frings spilaði á sínum tíma 79 landsleiki fyrir Þjóðverja og skoraði í þeim 10 mörk. Hann var í liði Þjóðverja sem varð í öðru sæti á HM 2002 og á EM 2008. Þjálfari Toronto er Hollendingurinn Aron Winter sem er mjög ánægður með nýju leikmennina.

„Við höfum bætt tveimur mikilvægum leikmönnum í hópinn með mikla reynslu og tæknilega getu. Torsten og Danny munu strax láta til sín taka hjá félaginu. Koma þeirra er stórt skref í að byggja upp lið sem stuðningsmennirnir geta verið stoltir af,“ sagði Winter.

Leikmennirnir tveir munu byrja að spila með Toronto þegar félagsskiptaglugginn opnast þann 15. júlí næstkomandi. Laun þeirra verða hærri en gengur en gerist hjá leikmönnum liðsins. Í MLS-deildinni er launaþak á leikmenn sem félög geta þó farið í kringum líkt og er tilfellið með stjörnuleikmenn á borð við David Beckham og Landon Donovan hjá LA Galaxy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×