Fótbolti

Framkvæmdir fyrir HM 2014 í Brasilíu á eftir áætlun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Miklar viðgerðir standa yfir á Maracana-vellinum fræga
Miklar viðgerðir standa yfir á Maracana-vellinum fræga Mynd/AFP Nordic
Framkvæmdir vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Brasilíu sumarið 2014 eru á eftir áætlun. Það segir Jerome Valcke framkvæmdastjóri alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA.

Ljóst er að nýr leikvangur í Sao Paulo verður ekki tilbúin fyrir álfukeppnina árið 2013. Litið er á mótið sem nokkurs konar upphitunarmót fyrir stóru keppnina ári síðar.

„Ég veit ekki hvort framkvæmdir hafi byrjað of seint. En vellirnir eru ekki á áætlun, ekki frekar en flugvellirnir og aðrar samgöngumiðstöðvar,“ sagði Walcke við rússnesk yfirvöld.

Rússland verður gestgjafi á HM 2018 og hefur Valcke ráðlagt Rússunum að hafa allt til reiðu tveimur árum en keppnin á að hefjast.

Rússar hafa tilnefnt þrettán borgir sem leikstaði en þarf að draga úr þeirri tölu fljótlega og ákveða hvar vellirnir verða byggðir.

„Við þurfum að byggja mikið. Við höfum aldrei reynt að fela þá staðreynd að við höfum ekki einn völl sem er í þeim gæðaflokki sem krafist er af FIFA,“ segir Alexei Sorokin yfirmaður heimsmeistaramótsnefndar Rússlands.

Talið er að framkvæmdakostnaður Rússa vegna nýrra mannvirkja verði rúmlega 1000 milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×