Fótbolti

Stórstjarna í MLS-deildinni sektuð fyrir leikaraskap

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Charlie Davies framherji D.C. United í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu (MLS) hefur verið sektaður fyrir að fiska vítaspyrnu. Aganefnd MLS fékk aukin völd fyrir tímabilið til þess að refsa leikmönnum fyrir leikaraskap og er Davies sá fyrsti sem fær á baukinn.

Davies henti sér í jörðina og fiskaði vítaspyrnu í leik D.C. United gegn Real Salt Lake. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en mark höfuðborgarliðsins kom úr vítaspyrnunni sem Davies fiskaði. Aganefndin þarf að vera einróma sammála í ákvörðun sinni hvort um leikaraskap sé að ræða. Leikaraskapurinn þarf því að vera hafinn yfir allan vafa.

Sekt Davies er ekki há, nemur aðeins 1000 dollurum. Leikmaðurinn er hins vegar eitt af stærri nöfnum boltans vestanhafs og hefur atvikið vakið töluverða athygli. Davies hefur spilað sautján landsleiki fyrir Bandaríkin og skorað í þeim fjögur mörk.

Hægt er að sjá atvikið í myndskeiðinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×