Fótbolti

Donovan ósáttur við Bradley þjálfara?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Donovan dapur í bragði eftir 4-2 tap gegn Mexíkó í úrslitaleik Gullbikarsins
Donovan dapur í bragði eftir 4-2 tap gegn Mexíkó í úrslitaleik Gullbikarsins Mynd/AFP Nordic
Landon Donovan stjörnuleikmaður bandaríska landsliðsins skar sig úr meðal liðsmanna bandaríska landsliðsins að loknum úrslitaleiknum í Gullbikaranum á laugardag. Á meðan aðrir leikmenn studdu við bakið á þjálfaranum Bob Bradley eftir tapið gegn Mexíkó var Donovan stuttur til svars.

„Það er ekki mitt vandamál,“ sagði hann aðspurður hvort það væri réttmæt krafa hjá áhorfendum að vilja losna við þjálfarann.

Á sama tíma stóð markvörðurinn Tim Howards auk annarra aðspurðra við bakið á Bradley.

„Bob er ekki ábyrgur fyrir tapinu í kvöld. Leikmennirnir inni á vellinum verða að bera ábyrgð á því,“ sagði markvörðurinn.

Donovan dvaldi löngum stundum á varamannabekknum á mótinu. Bradley var að reyna nýja taktík sem Donovan var ekki hluti af. Fjölmiðlamenn spurðu Donovan út í bekkjarsetuna fyrir leikinn gegn Panama í undanúrslitum og svar hans var athyglisvert.

„Einu sinni, þegar ég var átta eða níu ára og lenti í slagsmálum í skólanum leyfði mamma mér ekki að spila leik. Hún lét mig samt fara á leikinn og fylgjast með af hliðarlínunni,“ sagði Donovan.

„Í hvert skipti sem ég horfi á leik af varamannabekknum fæ ég hungrið til þess að spila sem getur komið sér vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×