Fótbolti

England missteig sig - Japan með skyldusigur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mexíkósku stelpurnar fögnuðu marki Monicu Ocampo með tilþrifum
Mexíkósku stelpurnar fögnuðu marki Monicu Ocampo með tilþrifum Nordic Photos / AFP
Tveir leikir fóru fram í B-riðli á HM kvenna í knattspyrnu í Þýskalandi í dag. Japan vann 2-1 sigur á Nýja-Sjálandi en England náði aðeins 1-1 jafntefli gegn stöllum sínum frá Mexíkó.

Japan sem er í fjórða sæti á heimslistanum mætti Ný-Sjálendingum sem sitja í því tuttugusta og fjórða í fyrri leiknum í Bochum. Yuki Nagasato kom Japönum yfir snemma leiks en liðið var mun sterkari aðilinn í leiknum. Amber Hearn náði að jafna fyrir Ný-Sjálendinga áður en Japanir tryggðu sér sigur. Markið var af dýrari gerðinni. Glæsileg aukaspyrna frá Aya Miyama.

Fara Williams kom Englandi yfir með skallamarki eftir hornspyrnu um miðjan fyrri hálfleikinn. Englendingar höfðu verið sterkari aðilinn og markið verðskuldað.

Englendingar héldu áfram að sækja en það voru þó Mexíkóar sem jöfnuðu metin tólf mínútum síðar. Monica Ocampo skoraði þá eitt af mörkum keppninnar með skoti af 30 metra færi upp í markhornið.

Bæði lið fengu færi til þess að tryggja sér sigurinn en allt kom fyrir ekki. Mexíkóar líklega nokkuð sáttir enda liðið tólf sætum neðar en England á styrkleikalistanum og því fyrir fram talið ólíklegra til sigurs.

Á morgun hefst keppni í C-riðli með viðureignum Bandaríkjanna gegn Kólumbíu og Norður-Kóreu gegn Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×