Fótbolti

Syndaselirnir í mexíkóska landsliðinu fengu sex mánaða bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landsliðsmenn Mexíkó fagna.
Landsliðsmenn Mexíkó fagna. Nordic Photos / AFP
Þeir átta leikmenn sem voru reknir úr mexíkóska landsliðshópnum nú fyrir skömmu hafa verið dæmdir í sex mánaða bann af knattspyrnusambandi landsins. Refsinguna fá þeir fyrir að hafa fengið vændiskonur til að mæta á hótel þeirra í Ekvador um helgina, þar sem liðið er nú að undirbúa sig fyrir Copa America.

Leikmennirnir átta voru einnig sektaðir um tæpa hálfa milljón króna hver en mexíkóska knattspyrnusambandið vildi reyndar ekkert segja til um ástæður refsingarinnar að öðru leyti en að um leikmennirnir hafi brotið agareglur liðsins. Ástæðurnar hafa þó komið fram í fjölmiðlum síðustu daga.

„Þetta er okkur mjög sársaukafullt að gera þetta nú, aðeins viku áður en við byrjum að spila á Copa America,“ sagði liðsstjóri landsliðsins. „Leikmennirnir hafa játað sök og sjá mjög á eftir þessu. Þeir hafa beðið liðið, þjálfara, knattspyrnusambandið og stuðningsmennina afsökunar.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að leikmenn eru reknir úr landsliði Mexíkó en þann 9. júní síðastliðinn var tilkynnt að fimm leikmenn liðsins hefðu fallið á lyfjaprófi. Voru þeir reknir úr liðinu skömmu áður en Gold Cup-keppnin hófst en þar bar Mexíkó sigur úr býtum.

Mexíkó mætir Síle í fyrsta leik Copa America á mánudaginn næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×