Fótbolti

Brasilía og Noregur unnu leiki sína með minnsta mun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Marta, Rosana og félagar fagna sigurmarkinu í Augsburg í dag
Marta, Rosana og félagar fagna sigurmarkinu í Augsburg í dag
Brasilía og Noregur lentu í óvæntu basli með mótherja sína á heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu en leikið var í D-riðli í dag. Fyrstu umferð riðlakeppninnar lauk með leikjum dagsins.

Lítið hefur verið um óvænt úrslit á mótinu hingað til en margar stórþjóðir sloppið fyrir horn.

Noregur mætti Miðbaugs-Gíneu í fyrri leik dagsins í Augsburg. 52 sæti skilja liðin að á styrkleikalista FIFA en lengi vel leit út fyrir að Norðmönnum myndi ekki takast að innbyrða sigur. Fimm mínútum fyrir leikslok tókst hinni 19 ára gömlu Emilie Haavi að koma knettinum í markið af stuttu færi.

Norsku stelpurnar, sem eru í riðli með Íslendingum í undankeppni Evrópumótsins, urðu heimsmeistarar árið 1995. Í keppninni fyrir fjórum árum lentu þær í fjórða sæti.

Í síðari leik dagsins í Mönchengladbach vann Brasilía 1-0 sigur á Áströlum í hörkuleik. Eina mark leiksins kom snemma í síðari hálfleik þegar Rosana framherji Brasilíu tók knöttinn fallega niður utarlega í teignum og sendi hann með vinstri fæti óverjandi í fjærhornið.

Leikurinn var nokkuð jafn og voru Ástralar meira með boltann en áttu í erfiðleikum með að nýta færi sín. Litlu mátti muna undir lokin en Brasilía náði í stigin þrjú.

Á morgun mæta Þjóðverjar Nígeríu og Kanada og Frakkland eigast við.

Hægt er að fylgjast með gangi mála í Þýskalandi og sjá það athygliverðasta úr leikjunum á heimasíðu FIFA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×