Innlent

Kröfu Geirs hafnað

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde Mynd/Anton Brink
Landsdómur hafnaði í gær þeirri kröfu Geirs H. Haarde að dómendur og varamenn, sem Alþingi kaus til sex ára setu í landsdómi árið 2005, víki sæti í máli sínu.

Geir lagði kröfu sína fram við þingfestingu málsins þann 7. júní síðastliðinn en hann segir þá dómara sem í dóminum sitja vera vanhæfa þar sem óhlutdrægni þeirra megi draga í efa. Hann bendir á að Alþingi, sem gegnir hlutverki saksóknara í málinu, hafi samþykkt lög sem geri það að verkum að dómarar landsdóms ljúki meðferð í máli Geirs þó svo kjörtímabil þeirra sé á enda, en ef lögin hefðu staðið óbreytt hefðu nýir dómarar verið kjörnir og tekið sæti í dóminum þann 11. maí síðastliðinn.

Í kröfunni segir að Alþingi, sem er handhafi ákæruvaldsins í málinu, hafi þannig valið dómara til að fara með málið og brjóti þetta gegn stjórnarskrárvörðum rétti Geirs til málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli.

Landsdómur vísar hinsvegar í ákvæði 48. gr.laga um stéttarfélög og vinnudeilur, en samkvæmt 4. málslið þeirrar greinar gildir sú regla að dómarar, sem byrjað hafa meðferð máls fyrir Félagsdómi, skuli ljúka því þótt kjörtímabil þeirra sé á enda. Sama regla eigi við Landsdóm þar sem þessir sérdómstólar tveir séu hliðstæðir að því er varðar tímabundna setu dómara. Auk þess bendir dómurinn á að þessi regla gildi einnig um Mannréttindadómstól Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×