Enski boltinn

Scholes: Ég var ekki grófur leikmaður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mike Dean sýnir Scholes rautt spjald fyrir tæklinguna á Zabaleta
Mike Dean sýnir Scholes rautt spjald fyrir tæklinguna á Zabaleta Mynd/Getty Images
Knattspyrnumaðurinn Paul Scholes sem nýverið lagði skóna á hilluna segist ekki hafa verið grófur leikmaður. Hann segir ljótar tæklingar sínar hafa verið slæmri tímasetningu að kenna.

Scholes hlaut 90 gul spjöld í ensku úrvalsdeildinni og situr í þriðja sæti yfir leikmenn sem hafa verið áminntir oftast. Hann segir orðspor sitt sem grófan knattspyrnumann ekki sanngjarnt.

„Ég hef bara verið óheppinn. Ég hef aldrei ætlað mér að meiða neinn. Tæklingin á Zabaleta (í undanúrslitum FA bikarins) var ekki viljandi. Slæmri tímasetningu var um að kenna," sagði Scholes við breska fjölmiðla.

„Ég myndi aldrei meiða neinn vísvitandi. Enginn hefur þurft að yfirgefa völlinn eftir tæklingu frá mér. Ég hef aldrei verið sóðalegur leikmaður," bætti Scholes við.

Tæklingar Scholes voru ljóður á leikstíl kappans sem á stórkostlegan feril að baki. Hann hefur fengið mikið hrós í gegnum tíðina frá fremstu knattspyrnumönnum heimsins. Skemmst er að minnast úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu í maí þegar skærustu stjörnur Barcelona vildu allar skiptast á treyjum við kappann. Þar varð Andres Iniesta hlutskarpastur.

Scholes verður áfram á launaskrá hjá Manchester United en hann verður í þjálfarateymi félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×