Fótbolti

Alfreð: Frammistaða mín döpur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Alfreð Finnbogason náði sér ekki á strik með íslenska U-21 landsliðinu gegn Sviss í dag, frekar en margir aðrir í íslenska liðinu. Leikurinn tapaðist, 2-0, og er Ísland enn án stiga eftir fyrstu tvo leikina í A-riðli á EM í Danmörku.

Alfreð var í byrjunarliðinu í dag í stað Jóhanns Bergs Guðmundssonar sem á við meiðsli að stríða. Hann var svo tekinn af velli í hálfleik.

„Við vorum ekki á tánum sem sést best á því að þeir skoruðu strax á fyrstu mínútu leiksins. Það voru allir á hælunum og því miður get ég bara borið ábyrgð á minni frammistöðu og hún var mjög döpur í dag. Ég þarf að skoða mín mál," sagði Alfreð.

„Þeir voru fljótari í öll návígi, í alla seinni bolta og tóku alla skallabolta. Ef þú ert ekki yfir í þeirri baráttu áttu mjög lítinn séns á að vinna fótboltaleik."

„Staðreynd málsins er að þeir voru bara betri en við í dag. Þeir unnu sannfærandi sigur og við fengum ekkert nema 1-2 opin færi. Á meðan stjórna þeir leiknum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og er það bara okkur að kenna. Við vorum daprir og við getum ekki falið það."

„Það er gríðarlega svekkjandi að við skulum ekki enn hafa skorað í keppninni. Sérstaklega fyrir mig sem sóknarmann að vera ekki búinn að koma mér í nein almennileg færi eða búa eitthvað til. Það eru margir lykilleikmenn sem voru að spila undir getu og ég verð bara að taka ábyrgð á minni frammistöðu sem var alls ekki góð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×