Fótbolti

Suður-Ameríkukeppnin í uppnámi vegna öskuskýs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi er mættur og þarf ekki að hafa áhyggjur af öskuskýinu.
Lionel Messi er mættur og þarf ekki að hafa áhyggjur af öskuskýinu. Mynd/AFP
Julio Grondona, forseti argentínska knattspyrnusambandsins, segir að leikjadagskrá Suður-Ameríkukeppninnar í fótbolta gæti raskast vegna öskufalls frá eldfjallinu Puyehue-Cordon Caulle í Síle.

Eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum hafa haft áhrif á ferðatillögun liða í Meistaradeildinni undanfarin tvö ár og nú lamar öskuskýið frá eldfjallinu í Síle flug í Suður-Ameríku.

Flug féllu niður í Argentínu og Úrúgvæ í dag og forráðamenn keppninnar eru farnir að búa til varaáætlanir til þess að koma liðunum í tíma á keppnisstaðina. Ein þeirra er að fljúga með liðin til Asuncion í Paragvæ og ferðast þaðan á landi til leikstaðanna í Argentínu.

„Við munum fylgjast náið með þróun mála og eins og er komast liðin ekki til Buenos Aires. Mótið hefst 1. júlí og við vonum að öskuskýið heyri sögunni til eftir fimm eða sex daga," sagði Julio Grondona.

Suður-Ameríkukeppnin fer fram í Argentínu, hún hefst  1. júlí og lýkur með úrslitaleik í Buenos Aires 24. júlí. Tólf landslið taka þátt í mótinu, tíu frá Suður-Ameríku auk gestaliða frá Mexíkó og Kosta Ríka. Allir leikirnir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×