Fótbolti

Bjarni Þór: Getum ekki farið frá Danmörku án þess að skora

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Íslenska 21 árs landsliðið er stigalaust og ekki enn búið að skora eftir fyrstu tvo leiki sína á EM í Danmörku. Íslenska liðið tapaði 0-2 á móti Sviss í dag og Bjarni Þór Viðarsson skilur ekki af hverju það var ekki meiri grimmd í íslenska liðinu í leiknum.

„Við vorum bara mjög lélegir og byrjuðum leikinn eins og ég veit ekki hvað," sagði Bjarni Þór Viðarsson, fyrirliði íslenska u21 landsliðsins.

„Við fengum á okkur mark eftir nokkrar sekúndur, erum hægir í sóknarleiknum og alltof langt frá mönnunum. Við erum ekki nógu grimmir og það kostaði okkur þennan leik í dag," sagði Bjarni Þór.

„Við vinnum enga seinni bolta og ef þú gerir það ekki í leik á móti svona sterku liði þá ertu aldrei að fara að fá eitthvað út úr leiknum," sagði Bjarni Þór.

„Þetta var þvílíkt stór leikur fyrir okkur alla og það er ótrúlegt að við náum ekki upp þessari grimd. Það er kannski smá sjokk að fá sig þetta mark í byrjun en það á ekki að breyta það miklu. Við vorum bara andlausir í dag," sagði Bjarni Þór.

„Það verður erfitt að reyna rífa menn upp næstu daga en við getum bara ekki farið frá Danmörku án þess að skora mark og án stiga. Það yrði dapurt," sagði Bjarni Þór en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×