Fótbolti

Maradona lögsækir kínverskt fyrirtæki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maradona vakti mikla athygli í Suður-Afríku síðastliðið sumar
Maradona vakti mikla athygli í Suður-Afríku síðastliðið sumar Mynd/Nordic Photos/Getty
Knattspyrnugoðsögnin Diego Maradona hefur lagt fram kæru á hendur kínverska fyrirtækinu Sina fyrir notkun á nafni hans og ímynd til að kynna tölvuleik. Maradona fer fram á rúmar tvær milljónir evra í bætur frá Sina og og The9 Limited, framleiðanda tölvuleiksins „Winning Goal“.

Stutt er síðan kynning á tölvuleiknum hófst þar sem Maradona var sagður talsmaður leiksins. Maradona segist hins vegar aldrei hafa gefið fyrirtækjunum grænt ljós.

Framleiðandi tölvuleiksins hefur beðist afsökunar og segist hafa verið blekktur af kínverskum umboðsmanni. Hann hafi sagt Maradona kláran í slaginn.

„Ég tek ekki við þessari afsökunarbeiðni frá The9 Limited og mun gæta réttar míns samkvæmt lögum“, segir í yfirlýsingu frá Maradona.

Maradona er mjög vinsæll meðal knattspyrnuáhugamanna í Kína og var títtnefndur konungur knattspyrnunnar í fjölmiðlum þegar hann heimsótti Peking í nóvember síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×