Enski boltinn

Kevin Nolan til West Ham

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nolan í leik með Newcastle
Nolan í leik með Newcastle Mynd/Nordic Photos/Getty
Enski miðjumaðurinn Kevin Nolan hefur gengið til liðs við West Ham frá Newcastle. Nolan mun leika undir stjórn Sam Allardyce líkt og hann gerði á sínum tíma hjá Bolton.

Nolan sem er 28 ára skrifaði undir fimm ára samning við Hamrana. Newcastle vildu halda honum en voru ekki tilbúnir að bjóða honum langtíma samning. Kaupverðið er óuppgefið en er talið geta náð allt að fjórum milljónum punda samkvæmt vefsíðu BBC.

„Hann sýndi leiðtogahæfileika og ég óska honum góðs gengis hjá West Ham. Þetta er frábært félag og ég er viss um að hann muni þrífast þar,“ sagði Alan Pardew stjóri Newcastle og fyrrum stjóri West Ham.

Nolan átti erfitt uppdráttar á sínu fyrsta tímabili hjá Newcastle er liðið féll úr úrvalsdeildinni. Hann fór hins vegar fyrir liðinu sem tryggði sér sæti í deildinni á nýjan leik og var valinn leikmaður ársins. Fyrirliðinn hélt uppteknum hætti með Newcastle á nýliðnu tímabili og skoraði 12 mörk.

Talið er líklegt að Nolan verði fyrirliði West Ham. Hann er annar leikmaðurinn á tveimur dögum sem gengur til liðs við West Ham en Senegalinn Abdoulaye Faye kom í gær til félagsins á frjálsri sölu.

Sóknarmaður West Ham, Demba Ba, virðist hins vegar á förum frá félaginu og er Newcastle talinn líklegur áfangastaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×