Fótbolti

Fyrrum forseti FIFA í slæmum málum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Siðanefnd Alþjóða ólympíunefndarinnar hefur hafið rannsókn á ásökunum sjónvarpsþáttar BBC á hendur João Havelange fyrrum forseta FIFA. Brasilíumaðurinn, sem er 95 ára gamall, er sakaður um að hafa þegið mútur. Guardian fjallar um málið.

Í BBC-þættinum „FIFA: Skömm fótboltans" sem sýnd var í maí, var fjallað um tengsl FIFA við svissneska markaðsfyrirtækið ISL. Fyrirtækið, sem var úrskurðað gjaldþrota árið 2001, fékk endurtekið auglýsinga- og markaðsréttinn að heimsmeistarakeppnunum í knattspyrnu þrátt fyrir að önnur fyrirtæki hafi verið tilbúin að greiða hærra fé.

Sjónvarpsmaður BBC veltir fyrir sér hvernig stóð að því að ISL hafi endurtekið fengið jafnstóran íþróttaviðburð og HM í knattspyrnu í sínar hendur.

Í myndinni er sagt frá því að Havelange hafi fengið eina milljón dollara frá ISL. Raunar hafi peningurinn fyrir mistök verið lagður inn á reikning FIFA sem hafi í framhaldinu lagt féð inn á persónulegan reikning Havelange. Því er einnig haldið fram að Sepp Blatter, sem þá var framkvæmdastjóri FIFA, hafi vitað af málinu en ekkert aðhafst.

Havelange hefur ekkert látið hafa eftir sér varðandi ásakanirnar. Ólympíunefndin hefur verið í sambandi við BBc í töluverðan tíma. Í fyrri heimildarmynd BBC um vandræði innan FIFA sem sýnd var í nóvember var Issa Hayatou, forseti afríska knattspyrnusambandsins, sakaður um 10.000 dollara mútugreiðslu frá ISL. Síðan þá hefur málið verið í skoðun hjá siðanefnd Ólympíunefndarinnar.

En nú hefur rannsóknin náð til Havelange sem auk Hayatou á sæti í Alþjóða Ólympíunefndinni. Í svari nefndarinnar við fyrirspurn breska dagblaðsins Guardian segir:

„IOC tekur allar ásakanir um spillingu alvarlega og við viljum að öll sönnunargögn á hendur meðlimum nefndarinnar berist siðanefndinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×