Enski boltinn

Steve Bruce mun forðast að kaupa afríska leikmenn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gyan og Sessegnon fagna marki á síðustu leiktíð
Gyan og Sessegnon fagna marki á síðustu leiktíð Mynd/Nordic Photos/Getty
Steve Bruce knattspyrnustjóri Sunderland segist ætla að forðast það að kaupa afríska leikmenn til félagsins í sumar. Ástæðan er Afríkukeppnin sem fram fer í janúar.

Bruce segir áhyggjuefni að vita af því að leikmenn liðsins verði fjarverandi á mikilvægum tímapunkti á leiktíðinni.

„Þegar þú ert að velja leikmenn til þess að kaupa pælirðu ekki í þjóðerni þeirra. Það eina sem skiptir máli eru hvort þeir séu nógu góðir og þannig er málum háttað hjá okkur,“ sagði Bruce við breska fjölmiðla.

„En eins og staðan er núna munum við forðast leikmenn frá Afríku. Fjarvera þeirra yrði mikið áhyggjuefni á næsta tímabili. Ef við myndum lenda í sömu meiðslavandræðum og á síðasta tímabili og missa nokkra leikmenn í þrjár vikur vegna Afríkukeppninnar værum við í skelfilegum málum,“ bætti Bruce við.

Allar líkur eru á því að framherjinn Asamoah Gyan verði í Afríku því Ghana er á góðri leið með að tryggja sér farseðilinn á mótið. Sephane Sessegnon frá Benín og Ahmed Elmohamady frá Egyptalandi gætu þó misst af keppninni því landsliðum þeirra hefur gengið illa í undankeppninni. Það hljóta að vera góðar fréttir fyrir Bruce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×