Fótbolti

Eggert Gunnþór: Svöruðum gagnrýnisröddum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson segir að það geti stundum verið stutt á milli hláturs og gráturs í boltanum - eins og sýndi sig þegar Ísland vann 3-1 sigur á Danmörku í kvöld en var aðeins hársbreidd frá því að komast áfram í undanúrslitin. Þess í stað er Ísland úr leik á mótinu.

„Við erum fyrst og fremst svekktir að hafa ekki komist áfram en við getum verið gríðarlega stoltir af frammistöðu okkar. Við vorum svo nálægt þessu," sagði Eggert við Vísi eftir leikinn.

„En við komum okkur sjálfir í þessa stöðu - það var allt undir í þessum leik. En við vorum frábærir í dag og fannst mér að við höfðum fengið nokkuð harða gagnrýni á okkur frá sumum heima. En við erum gott lið og ég held að það sé enginn í vafa um það í dag."

„Við erum gríðarlega stoltir í dag enda vorum við hrikalega nálægt því að komast áfram upp úr riðlinum. Það hefði verið svakalegt afrek. Við höfðum allan tímann trú á verkefninu. Við áttum helling inni eftir fyrstu tvo leikina og við sýndum allt okkar besta í dag."

„Stóri lærdómurinn er sá að þú getur ekki leyft þér að gera mistök. Og ef þú mætir ekki almennilega til leiks þá verður þér refsað. En mér fannst við vera virkilega óheppnir á móti Hvít-Rússum og ef að hann hefði farið öðruvísi væri ég núna í sigurvímu. Það er stutt á milli hláturs og gráturs í þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×