Fótbolti

Eyjólfur: Strákarnir eiga eftir að koma A-liðinu á stórmót

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Eyjólfur Sverrisson segir það sárt að hugsa til þess að liðið sé nú úr leik á EM í Danmörku, nú fyrst þegar að liðið er nýbúið að ná sér á strik.

Eyjólfur fékk skamman tíma til að undirbúa liðið sitt fyrir mótið og segir að það sé eitthvað sem megi læra af. Ísland vann í gær 3-1 sigur á Dönum sem dugði þó ekki til að komast áfram í undanúrslit mótsins.

„Þetta var stórkostlegur leikur hjá strákunum og þeir sýndu sitt rétta andlit eins og við töluðum um að þeir ætluðu að gera sér í þessum leik,“ sagði Eyjólfur í löngu viðtali við fjölmiðla eftir leik. Viðtalið má sjá allt hér fyrir ofan.

„Við vorum að spila vel, verjast vel og fá færi. Við vorum að spila eins og við vorum að gera í undankeppninni. Það gekk virkilega vel í dag og þetta var sætur sigur. Það var svekkjandi að ná ekki síðasta markinu sem þurfti til.“

„Margir gerðu nú grín að því að við þyrftum „bara“ að vinna Danina 4-1. Við vorum svo alls ekki langt frá því og er ég stoltur af því að strákarnir trúðu á þetta. Maður verður alltaf að sjá drauminn.“

Eyjólfur var rekinn upp í stúku í leiknum fyrir að mótmæla dómgæslunni. „Hlutirnir hafa ekki verið að detta með litla Íslandi í þessari keppni og við höfum þurft að glíma við mikið mótlæti. Þá reynir maður að verja sjálfan sig og sína leikmenn. Maður lætur ekki traðka á sér.“

„Eini dapri hálfleikurinn sem við spiluðum í mótinu var gegn Sviss. Seinni hálfleikurinn var svo sem allt í lagi. Við erum nú búnir að vera saman í nokkra daga og æfa vel - kannski hefðum við þurft að byrja mótið núna. Það er kannski það sem er sárast í þessu og við getum lært af.“

„En þessir strákar eiga eftir að ná enn lengra og koma A-liðinu á stórmót. Þá eigum við eftir að skemmta okkur konunglega.“

Eyjólfur verður áfram þjálfari U-21 liðs karla. „Ég hef skuldbundið mig fyrir næstu keppni og verður það sama upp á teningnum þá. Við ætlum okkur langt og eru spennandi tímar fram undan.“

„Ég er reyndar klökkur yfir því að hafa starfað með þessum strákum sem hafa sýnt að þeir eru snillingar og eiga eftir að verða enn þá betri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×