Enski boltinn

Tevez hefur ekki ákveðið að yfirgefa Manchester City

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tevez með FA-bikarinn á Wembley
Tevez með FA-bikarinn á Wembley Mynd/Nordic Photos/Getty
Argentínumaðurinn Carlos Tevez hefur ekki ákveðið að yfirgefa Manchester City ef marka má umboðsmann hans Kia Joorabchian. Sagan endalausa um það hvort Tevez fari eða verði heldur því áfram.

Tevez var lykilmaður í liði City sem vann sinn fyrsta bikar í tæp 36 ár og tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu. Tevez hefur verið orðaður við brotthvarf frá enska félaginu í langan tíma en fjölskylda hans býr í Argentínu.

„Carlos hefur alltaf átt sér markmið. Það var að markmið að vinna titil og komast í Meistaradeildina. Það tókst og honum líður mjög vel af þeim sökum. Hann var mjög stoltur þegar hann lyfti titlinum,“ sagði Joorabchian við breska fjölmiðla.

„Ef þú skoðar leikmannahópinn þá verður þetta lið aðeins sterkara og verði Carlos áfram myndi ég telja þá líklegasta til þess að vinna titilinn,“ bætti hann við.

Joorabchian segir velgengnina og leikmannahópinn auka líkurnar á því að Tevez verði áfram hjá Manchester-liðinu.

„Allir þessir þættir mæla með því að hann verði áfram hjá liðinu. Carlos hefur ekki ákveðið að yfirgefa félagið,“ sagði Joorabchian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×