Fótbolti

Englendingum tókst ekki að fresta forsetakjörinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kosið verður í embætti forseta Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, í dag eins og áætlað var eftir að frestunartillögu enska knattspyrnusambandsins var hafnað með miklum meirihluta.

Englendingar tilkynntu í gær að þeir ætluðu að bera upp frestunartillögu vegna þess óróa sem hefur verið í kringum kjörið síðustu daga og vikur.

Sepp Blatter, núverandi forseti, er einn í framboði en Mohamed Bin Hammam dró sig úr kjörinu fyrir stuttu vegna ásakana um að hann hafi  reynt að kaupa sér atkvæði. Hann var síðan settur í tímabundið bann frá afskiptum af knattspyrnu af siðanefnd FIFA.

Blatter sjálfur var hreinsaður af öllum ásökunum en margir, þá sérstaklega Englendingar, eru afar óhressir með hans störf og vilja hann burt. Þetta viðhorf er til að mynda ríkjandi í enskum fjölmiðlum og hefur verið lengi.

Englendingar hlutu afhroð í kosningunum um hvar ætti að halda HM 2018 en enska umsóknin fékk aðeins tvö atkvæði af 22. Svo virðist sem að stuðningur við Englendinga innan knattspyrnuhreyfingarinnar hafi lítið breyst síðan þá en aðeins sautján kusu með frestunartillögunni - 172 felldu hana en alls voru 208 með atkvæðisrétt.

Rökstuðningur Englendinga var sá að það væri slæmt fyrir hreyfinguna að kjósa forseta þegar aðeins einn er í framboði. Gefa þyrfti öðrum tíma til að stíga fram.

Kosningin fer því fram eins og áætlað var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×