Fótbolti

Eiður Smári: Bull í Tony Pulis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen segir lítið hafa verið að marka ummæli Tony Pulis, knattspyrnustjóra Stoke, um hversu fá tækifæri Eiður fékk frá honum.

Eiður Smári er nú að undirbúa sig fyrir landsleikinn gegn Dönum á Laugardalsvelli um helgina en hann var ekki valinn í liðið sem mætti Kýpur í mars.

Eiður var í viðtali við Hans Steinar Bjarnason íþróttafréttamann sem spurði hvort að hann hafi verið sáttur við þá ákvörðun landsliðsþjálfarans.

„Nei, ekkert endilega. Maður verður að virða ákvörðun þjálfarans og er ekkert við því að gera," sagði Eiður Smári sem segist þó hafa verið í fínu standi. Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég hef verið leikfær og í formi síðan í haust, þegar ég var búinn að vera hjá Stoke í 4-5 vikur. Allt þetta bull sem ég hef lesið bæði frá Tony Pulis og öðrum eru bara afsakanir fyrir því að nota mig ekki."

„Ég er þar með ekki að segja að Óli hafi notað sömu afsakanir sjálfur en mér finnst allt of mikið hafa verið gert út þessu."

„Ég kom fjórum sinnum inn á sem varamaður hjá Stoke, síðast um miðjan október. Þá er eitthvað meira í stöðunni en bara leikform - það er eitthvað meira á bak við það."

Hann vildi þó ekki fara nánar út í þær ástæður. „Ég hef ekki hugmynd um þær og ætla ekki að eyða tíma í það. Satt best að segja var þetta erfitt tímabil en það var ágætt að komast að hjá Fulham og spila síðustu leikina í deildinni og koma sér aftur af stað."

Eiður er nú með samningstilboð frá Stoke sem hann er að skoða. „Það eru nokkrir hlutir í stöðunni og ég ætla að taka mér minn tíma. Fyrst ætla ég að einbeita mér að þessum leik núna og sjá svo til hvað gerist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×